Tuesday, August 20, 2013

Indónesía-Bali

Við flugum frá Singapore til Bali og tók það um 4 tíma minnir mig. Þegar lent er á flugvellinum á Balí þurfa allir að greiða ákv. gjald til þess að komast inn á eyjuna. Þegar við afhendum passann okkar til að greiða var okkur sagt að Ísland væri ekki til og trúðu okkur ekki þegar við sögðum að það væri land í Evrópu, en við komumst þó í gegn að lokum. 
Á flugvellinum kynntumst við stelpu sem var að ferðast ein um heiminn og tók hún leigubíl með okkur til Ubud sem er höfuðborg Balí. Þegar við stigum út úr leigubílnum kom maður á vespu til okkur og sagði okkur til fylgja sér því að hann vissi um frábært hótel. Okkur fannst það mjög grunsamlegt en fylgdum honum samt. Hann fór með okkur á ótrúlega flott hótel með tveimur sundlaugum og fallegu stóru herbergi á mjög sanngjörnu verði. 
Í Ubud leigðum við okkur vespu í heilan dag til þess að skoða okkur um. Við keyrðum út í sveit þar sem voru fullt af hrísgrjónaökrum og síðan var einnig algjör upplifelsi að sjá hvernig fólk bjó þarna. Það var fólk að baða sig í grútskítugum ám, þvo þvottinn sinn þar og börn að leika sér í því. Einnig fórum við að skoða skóla þar sem börn voru að æfa sig að labba í röð eins og hermenn og syngja. Síðan eftir marga klukkutíma á vespunni fundum við loksins stærstu hrísgrjónaakrana á Balí sem voru ekkert smá fallegir. Besta leiðin til þess að skoða sig um er klárlega á vespum.
Daginn eftir fórum við að skoða apa sem voru út um allt í Ubud. Við lögðum vespunni til þess að fylgjast aðeins með öpunum og eftir ekki langan tíma var einn apinn búinn að stela hjálminum mínum, sem var stærri en hann sjálfur. Þegar ég ætlaði að taka hann frá honum glefsaði hann og ætlaði að ráðast á mig þannig ég hljóp í burtu og endaði óvart ofan í læk.
Eftir þrjá yndislega daga í Ubud tókum við leigubíl til Kuta Beach. 
Kuta er mikill ferðamannastaður og ekki beint staður sem maður á að fara á ef maður vill upplifa mikla fegurð og eitthvað nýtt og minnir í raun á spán. En þar sem við ætluðum bara að slaka á síðustu tvær vikurnar, þá var þetta æðislegt. 
Við bjuggum á hóteli með sundlaug og morgunmat fyrir 1000 kr. nóttina á mann. Á Kuta láum við í sólbaði, surfuðum, fórum í vatnsrennubrautagarð, borðuðum góðan mat og nutum lífsins. 
Eftir tvær vikur á Kuta flugum við til baka til Bangkok. Þegar við lentum þar og ætluðum að sækja töskurnar okkar komumst við ekki í gegn því að verðirnir trúðu ekki að þetta væru við á passanum okkar. Héldu að við værum flóttamenn og það tók þá heil langan tíma að hleypa okkur í gegn. Þetta var eina skiptið í ferðinni sem ég varð smá smeik, enda ekki það skemmtilegasta að lenda í thailensku fangelsi held ég.
Þegar við komum til Bangkok ákváðum við að prufa annan stað en við höfðum verið í byrjun ferðarinnar og fórum í ríka hverfið. Þar voru milljón moll og gátum við verslað okkur aðeins þar. Eftir 2 daga í Bangkok lá leið okkar til Danmerkur og var verslað heilan helling þar áður en ferðin lá að leiðarenda. 

Asíureisan er það skemmtilegasta sem við höfum á æfi okkar gert og við mælum eindregið með að allir fari í slíka. Hún kostaði aðeins 650 þús. á mann þar sem við ferðuðumst á eigin vegum, sem ég mæli líka með að þið gerið. Það er ekki jafn skemmtilegt að vera með allt planað fyrir sig fyrirfram heldur mikið meiri upplifelsi að hafa allt opið og gera það sem manni dettur í hug-JUST DO IT :)

Hér getið þið einnig séð video úr ferðinni:  Asíureisa  


































Singapore

þrátt fyrir að það sé komið ár síðan að við vorum í reisunni, þá langar mig samt sem áður að hafa alla áfangastaði inni á þessu bloggi og ætla því að gera mitt besta að reyna að muna eftir því helsta sem gerðist.

Frá Kuala Lumpur til Singapore tókum við nætur rútu sem tók um það bil 6 klst. Á leiðinni fórum við í gegnum tollinn og pössuðum við okkur þar að vera alls ekki með tyggjó í farangrinum, vegna þess að við höfðum lesið í bókinni okkar, Southeast Asia on a shoestring, að það væri stranglega bannað að koma með tyggjó inn í landið vegna hreinlætis. 
Við komum á áfangastað með rútunni um miðja nótt og fórum við þá að rölta um til að leita okkur að hótelherbergi. Það var mikill verðmunur á herbergjum í Singapore í miðað við alla aðra staði sem við höfðum verið að ferðast á og enduðum í herbergi sem við borguðum um 12000 kr. fyrir nóttina.
Daginn eftir löbbuðum við um þessa fallegu borg og reyndum að skoða sem mest. Við skoðuðum mollið hjá Marina Bay Sands hótelinu sem var það flottasta sem við höfum séð. Inni í því var skautahöll, bíó, leikhús, casino, gondólar sem sigldu um á vatni og fullt fleira. Um kvöldið skoðuðum við Marina Bay Sands hótelið og fengum VIP passa upp á rooftopbarinn og að skoða sundlaugina. Á barnum fengum við okkur einn kaldann og horfðum á sólsetrið sem var engin smá fegurð. 
Þar sem það er ótrúlega dýrt að lifa í Singapore ákváðum við að vera þar aðeins í einn dag, en snillingarnir við pöntuðum flug á vitlausum degi og þurftum að kaupa aðra nótt. Við fundum okkur lítið herbergi fyrir 8000 kr. og flugum daginn eftir til Bali í Indónesíu.
Í heildina er Singapore rosalega flottur staður og sérstaklega fyrir fólk sem á pening :)